Fréttir

Líf og fjör á Sumardaginn fyrsta

Ungmennafélagið ÁS stóð fyrir leikjafjöri fyrir alla fjölskylduna í íþróttahúsinu á Sumardaginn fyrsta. Fleiri félagasamtök voru með viðburði á dagskránni því fyrr um daginn fór fram Firmakeppni Hestamannafélaganna Kóps og Sindra að Syðri-Fljótum og að loknu leikjafjöri UMFÁS bauð Kvenfélag Kirkjubæjarhrepps upp á kaffihlaðborð í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli.

Vel var mætt í íþróttahúsið og var farið í ýmsa skemmtilega leiki þar má meðal annars nefna brennó og hlaupa í skarðið. Einnig var farið í boðhlaup sem innihélt ýmsar þrautir t.d. pokahlaup, með kartöflu í skeið, myllu og hlaupa með badmintonflugu á spaða. Í lokin var farið í reipitog. Margir nýttu sér það að hreyfingu lokinni að frítt var í sund í tilefni af fyrsta degi sumars.

Fyrsta Frisbýgolfmót UMFÁS fór fram að loknu kaffihlaðborði og þar var afar fámennt en góðmennt. Rúnar Smári Ragnarsson Blandon bar þar sigur úr býtum. Frisbýgolfvöllurinn er í fínu standi og vel merktur, við hvetjum því íbúa sem og alla áhugasama til að nýta sér þessa skemmtilegu afþreyingu. Hægt er að fá lánaða diska í íþróttamiðstöðinni.