
Það er mikið líf í starfi Ungmennafélagsins ÁS þessa dagana og er þessi helgi gott dæmi um það.
Körfubolti:
Fyrsti viðburður helgarinnar fór fram í Vík í síðdegis í gær þar sem lið ÁS mætti Dímon/Heklu/Garpi í körfubolta 7.-8. bekkjar. Tveir iðkendur Umf. Kötlu spiluðu einnig með ÁS í leiknum og þökkum við þeim fyrir að spila með okkur í ÁS.
Um var að ræða fyrsta leik liðs ÁS í þessu fyrirkomulagi, 4×8 mínútur og spilað á stóran völl í 5 á móti 5. Leikurinn var sérstaklega hugsaður sem undirbúnings leikur fyrir Íslandsmót KKÍ um næstu helgi þar sem ÁS mun í fyrsta skipti eiga lið!
Lið Dímons/Heklu/Garps leiddi allan leikinn en lið ÁS var aldrei langt undan og átti marga mjög góða spretti. Fyrir síðasta leikhlutann munaði sjö stigum á liðunum, staðan 23-30. En lokatölur urðu 32-47. Ævintýrið rétt að byrja og góð reynsla í reynslubankann. Sem fyrr segir mun lið ÁS spila á Íslandsmóti KKÍ og verða andstæðingarnar þar sameiginlegt lið Rangæinga Dímon/Hekla/Garpur, Samherjar úr Eyjafirði og C lið Vals. Riðillinn sem ÁS spilar í verður leikinn í Laugardalshöll.
Verður spennandi að fylgjast áfram með þessu ævintýri!
Íþróttaskóli:
Núna kl. 10:00 hófst fyrsti íþróttaskóli vorannar og þar hefur að sjálfsögðu Fanney Ólöf umsjón. Í íþróttaskólanum er fjölbreytt hreyfing og góð samvera barna og foreldra. Í íþróttaskóla læra börn allar grunnhreyfingarnar.
Karate:
Strax að loknum íþróttaskóla hefst karatenámskeið sem stendur yfir bæði laugardag og sunnudag. Þar hefur umsjón Gunnlaugur Sigurðsson yfirþjálfari karatedeildar Hauka í Hafnarfirði, ásamt Gunnari Erlendssyni karateþjálfara UMFÁS.
Þeir Gunnlaugur og Gunnar eru búnir að setja saman metnaðarfulla dagskrá fyrir helgina og endar námskeiðið á prófi. Ef iðkendur standast prófið hljóta þeir nýtt belti í karate.