

Aðalfundur Ungmennafélagsins ÁS fór fram á Kirkjubæjarstofu síðastliðinn föstudag, 7. mars. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf sem og afhending viðurkenninga UMFÁS fyrir fyrsta starfsár félagsins, árið 2024.
Í barna- og ungmennastarfi voru veittar tvær viðurkenningar. Efnilegasti íþróttamaðurinn og hvatningarverðlaun. Þjálfarar UMFÁS sendu greinargerð til íþróttanefndar félagsins með tilnefningum, að þessu sinni var ein tilnefning í hvorum flokki. Það var fulltrúi íþróttanefndar, Bryndís Karen Pálsdóttir, sem tilkynnti hverjir hlutu viðurkenningarnar að þessu sinni.
Efnilegasti íþróttamaður UMFÁS 2024 er Pétur Yngvi Davíðsson.
Umsögn: Pétur Yngvi stundaði knattspyrnu, körfubolta og frjálsar íþróttir á liðnu ári. Í fótbolta keppti hann með liði USVS á Smábæjaleikunum á Blönduósi og var þar lykilmaður, markahæsti maður liðsins. Hann spilaði einnig með USVS á Unglingalandsmóti UMFÍ. Pétur er efnilegur fótboltamaður, með mjög góða boltatækni. Hann mætir vel á æfingar og er alltaf mjög virkur.
Pétur er einnig mjög efnilegur körfuboltamaður. Hann keppti þrisvar sinnum í körfubolta á liðnu ári, með ÁS á vormóti á Klaustri og haustmóti Dímons á Hvolsvelli. Þar skoraði hann hverja körfuna á fætur annarri og sýndi mikil gæði. Hann spilaði einnig með liði USVS á Unglingalandsmóti UMFÍ þar sem hann stóð sig virkilega vel. Að sögn þjálfara hans er hann mjög einbeittur í því að bæta sig og læra.
Pétur æfði frjálsar á liðnu ári og var mjög virkur og áhugasamur eftir að þær komu að nýju inni á dagskrá félagsins síðastliðið haust. Þar sást greinilega hversu efnilegur hástökkvari Pétur er. Á Unglingalandsmóti UMFÍ keppti hann einnig í handbolta ásamt félögum sínum í USVS. Hér er á ferðinni mjög metnaðarfullur og efnilegur íþróttamaður sem á framtíðina fyrir sér.
Hvatningarverðlaun UMFÁS hlýtur Signý Heiða Þormarsdóttir.
Umsögn: Signý Heiða stundaði knattspyrnu, frjálsar íþróttir, körfubolta og karate á liðnu ári. Í fótbolta keppti hún með liði USVS á Smábæjaleikunum á Blönduósi, þá lék hún einnig á nokkrum mótum með KFR. Hún mætir vel á æfingar, gefst aldrei upp og gerir alltaf sitt besta. Undir það tekur þjálfari KFR sem segir að öll lið væru vel sett með leikmann eins og Signýju í sínu liði. Í körfubolta keppti hún með UMFÁS á vormóti ÁS og haustmóti Dímon á Hvolsvelli þar sem hún stóð sig mjög vel.
Í frjálsum keppti hún á innanhúsmóti USVS og stóð sig þar með mikilli prýði sem og á Silfurleikum ÍR í nóvember. Í öllum greinum bætti hún sinni árangur, í langstökki 10-11 ára varð hún í 56. sæti af 104 keppendum, í 60 metra hlaupi varð hún í 80. sæti af 101 keppenda, í 600 metra hlaupi 42. sæti af 78 keppendum, í kúluvarpi gekk best þar sem hún varð í 29. sæti af 104 keppendum, virkilega flottur árangur.
Í karate hefur Signý einnig stundað æfingar af miklum áhuga. Að sögn þjálfara hennar er hún að standa sig virkilega vel og á hrós skilið. Hún tók beltispróf í karate síðastliðið vor þar sem hún náði mjög góðum árangri, hoppaði yfir eitt belti og hlaut þar af leiðandi það appelsínugula.
Signý Heiða er mjög áhugasöm og mætir alltaf með bros á vör á æfingar. Mæting á æfingar og framkoma til mikillar fyrirmyndar.
Skilgreiningar á viðurkenningum.
Efnilegasti íþróttamaðurinn: Þessi viðurkenning er veitt einstaklingi sem tekið hefur miklum framförum og náð góðum árangri í keppni. Sýnt af sér góða framkomu og mætt vel á æfingar.
Hvatningarverðlaun: Þessi viðurkenning er veitt einstaklingi sem mætir mjög vel á æfingar. Sýnir þar mikinn áhuga og virkni ásamt fyrirmyndar framkomu.
Fylgist áfram vel með, frekari fréttir af aðalfundi Ungmennafélagsins ÁS munu birtast hér á heimasíðu félagsins næstu daga.