Fréttir

Mikil gleði á leikjanámskeiði

Síðustu tvær vikurnar hefur staðið yfir leikjanámskeið á Kirkjubæjarklaustri. Fyrsta námskeiðið í þessari mynd fór fram árið 2020 og var þetta því fimmta árið í röð sem boðið er upp á leikjanámskeið með þessu sniði.

Námskeiðið hefur þó breyst talsvert frá því það hóf göngu sína, dögunum hefur fjölgað og ýmsir viðburðir bæst við. Það er þó einn viðburður sem hefur haldið sér öll árin og það er hin vinsæla heimsókn slökkviliðs Skaftárhrepps. Þeir kíktu í heimsókn í dag og úr varð mikið fjör þar sem allir urðu að lokum blautir, krakkarnir sem og fullorðna fólkið!

Hlaupið í skarðið eftir nestispásu við Systrastapa.

Krakkarnir halda einnig mikið upp á gönguferðirnar á námskeiðinu. Síðastliðinn mánudag fór hópurinn í gönguferð um Ástarbrautina og svo í framhaldi á því að Stjórnarfossi þar sem allir kældu sig aðeins niður í Stjórn. Í gær, fimmtudag hélt svo hópurinn í gönguferð að Systrastapa sem var mikið ævintýri.

Það er því heldur betur mikið búið að bralla síðustu vikur að frátöldu því sem þegar hefur verið upptalið, hlaupið, dansað, farið í eina krónu, gönguferðir, tarzan leikur, bíó, þrautir og fjölbreyttir leikir. Endað var á því að grilla pylsur og allir fengu sérmerkt leikjanámskeiðs buff í þátttökugjöf.

Sigurður Eyjólfur hafði umsjón með námskeiðinu fimmta árið í röð. Honum til aðstoðar voru reynslumiklir aðstoðarmenn, en þau Ásgeir Örn og Ólöf Ósk hafa verið með á námskeiðinu síðustu fjögur ár í því hlutverki. Kjartan Valur Ólafsson kom svo nýr inn í leikjanámskeiðteymið í sumar en hann var einmitt einn af þátttakendum á fyrsta námskeiðinu árið 2020.

Erfitt að skora hjá þessum markverði

Eina króna í íþróttahúsinu sló í gegn