Fréttir

Mikið líf og fjör á ÁS mótinu

Í gær fór hið árlega ÁS mót í körfubolta fram í íþróttahúsinu á Kirkjubæjarklaustri. Skráðir voru til leiks tæplega 100 keppendur frá 5 félögum. Keppendurnir voru frá Ungmennafélaginu Kötlu, Íþróttafélaginu Dímon, Ungmennafélaginu Heklu, Íþróttafélaginu Garpi svo að sjálfsögðu Ungmennafélaginu ÁS sem átti 17 keppendur á mótinu.

Alls spilaðir voru 29 leikir á mótinu, yngstu keppendurnir voru í 1. bekk og þeir elstu í 8. bekk. Ekki var annað að sjá og heyra en allir hafi skemmt sér vel og notið þess að keppa í þessari skemmtilegu íþrótt.

Um er að ræða stærsta viðburð sem Ungmennafélagið ÁS stendur fyrir árlega. Sjálfboðaliðar skipta öllu máli við svona mótahald og var frábært að sjá hversu margir voru mættir á staðinn til að vinna við mótið. Um 30 sjálfboðaliðar lögðu til vinnu við mótið í hinum ýmsu hlutverkum, á sjoppuvöktum, í dómgæslu og á ritaraborði.

Það er ómetanlegt að eiga öfluga sjálfboðaliða í sínum röðum og getum við hjá Ungmennafélaginu ÁS svo sannarlega sagt það með stolti! Bestu þakkir fyrir ykkar framlag án ykkar hefði þetta ekki verið hægt. Jafnframt þökkum við þeim Auði Eyþórsdóttur og Guðmundi Vigni innilega fyrir sitt framlag en þau gáfu vörur til að selja í sjoppunni á mótinu sem var fjáröflun fyrir íþróttastarf barnanna.