Fréttir

Metþátttaka frá USVS á Smábæjaleikum

Fjórða árið í röð sóttu iðkendur frá USVS Smábæjaleikana á Blönduósi. Það er afar ánægjulegt að segja frá því að keppendum fjölgar alltaf á milli ára. Sem segir okkur það að okkar fólk fer alltaf ánægt frá Blönduósi og býður spennt eftir því að koma aftur.

Þrjú lið voru skráð til leiks frá USVS í 5. 6. og 7. flokki og eins og alltaf voru úrslitin allskonar, bæði sigrar og töp. Okkar fólk skoraði svo auðvitað fullt af glæsilegum mörkum. Ungmennafélagið ÁS átti 19 keppendur í þessum tæplega 30 keppenda hópi frá USVS. Ungmennafélagið Katla átti 8 keppendur.

Það má jafnvel segja að keppnin á svona mótum sé í raun algjört aukaatriði. Því þessi mikla og góða samvera á öllum stundum á tjaldsvæðinu, leiksvæðinu eða fótboltavellinum er það skemmtilegasta við ferðirnar á svona mót.

Það er ekki sjálfsagt komandi úr litlu samfélagi að við mætum nú ár eftir ár með lið á mótið. En ástæðan fyrir því að við getum það er mikill áhugi, sem er auðvitað til staðar hjá krökkunum, en ekki síður hjá fullorðna fólkinu. Það hefur mikil stemmning byggst upp í kringum mótið hjá foreldrum sem er algjörlega frábært og þeir greinilega duglegir við að láta aðra vita hvað þetta er skemmtilegt. Þannig kemur árlega inn nýtt fólk í þetta fjör og þegar búið er að fara einu sinni er auðvitað ekki annað hægt en að fara aftur! Foreldrar eiga því stóran þátt í því að gera Smábæjaleikana að þeim ómissandi viðburði sem þeir eru orðið í okkar starfi.

Smábæjaleikarnir árið 2025 fara fram dagana 14.-15. júní.

5. flokkur ásamt þjálfara sínum Sigurði Eyjólfi Sigurjónssyni – Mynd: Sólveig Ólafsdóttir

6. flokkur ásamt liðstjóra helgarinnar Auði Guðbjörnsdóttur – Mynd: Guðmundur Vignir Steinsson

7. flokkur ásamt þjálfara sínum Sigurði Gísla Sverrissyni – Mynd: Sólveig Ólafsdóttir