Fréttir

Landsleikur í fótbolta

Það voru 11 spenntir knattspyrnuiðkendur úr Skaftárhreppi ásamt 3 fullorðnum fylgdarmönnum sem lögðu af stað í ferðalag í hádeginu síðastliðinn föstudag. Förinni var heitið til Reykjavíkur til að fylgjast með landsleik í fótbolta.

Við komuna til Reykjavíkur byrjaði hópurinn á því að gæða sér á pizzu svo að allir myndu halda saddir og sælir á völlinn. Næst var haldið niður í Laugardal þar sem hópurinn skoðaði sig um í kringum Laugardalsvöll. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar hópurinn stillti sér upp við styttu af knattspyrnuhetjunni Alberti Sigurði Guðmundssyni. Albert var brautryðjandi í knattspyrnu á Íslandi, afrekaði það að vera fyrsti atvinnumaður Íslendinga í fótbolta.

Næst lá leiðin inn á völlinn þar sem hópurinn sá til þess að góð sala var í minjagripabúðinni á vellinum! Sérstaklega í hárkolludeildinni þar sem einn keypti sér hárkollu í íslensku fána litunum, svo fylgdu hinir 10 á eftir. Það var því sérlega þægilegt fyrir fylgdarfólk hópsins að greina innan um allan mannfjöldann hverjir tilheyrðu hópnum eftir að allir höfðu sett upp hárkolluna góðu!

Svo var komið að leiknum. Leik Íslands og Svartfjallalands í Þjóðadeildinni. Spennan í hópnum fyrir leiknum var eðlilega mikil, enda hafði aðeins 1 af þessum 11 farið á landsleik. Okkar fólk lagði svo sannarlega sitt af mörkum í stuðningsliðinu og tóku virkan þátt í að hvetja okkar lið áfram. Tvö frábær mörk frá þeim Orra Steini og Jóni Degi skiluðu 2-0 sigri Íslands.

Það var þreyttur en ánægður hópur sem skilaði sér til baka á Kirkjubæjarklaustur eftir miðnættið. Frábært að geta boðið upp á þetta ævintýri fyrir krakkana. Við færum þeim Sólveigu og Ragnari Smára bestu þakkir fyrir að koma með í ferðina sem fulltrúar foreldra. Þá viljum við einnig þakka South Coast Adventure innilega fyrir skutlið og frábæra þjónustu!

Áfram Ísland og áfram ÁS!