Ungmennafélagið Ármann sendir þér og þínum hátíðarkveðju! Með kærri þökk fyrir samverustundir á árinu sem er að líða. Megi nýtt ár færa okkur öllum gæfu og gleði ásamt fullt af nýjum íþróttaminningum!
Á milli jóla og nýárs verður dreift út fréttabréfi íþrótta- og æskulýðsstarfs í Skaftárhreppi. Þar sem lesa má um helstu atburði líðandi árs. Hér að neðan má lesa pistla formanns og íþróttafulltrúa en þeir munu einnig birtast í fréttabréfinu.
Pistill formanns
Fanney Ólöf Lárusdóttir formaður Ungmennafélagsins Ármanns
Árið 2023 hefur einkennst af mörgum íþróttaviðburðum og miklu ,,hreyfiframboði”. Margt er í boði og reynt að höfða til sem flestra. Þetta er ekki sjálfgefið og tel ég að stórt gæfuspor hafi verið stigið þegar sveitarstjórn Skaftárhrepps og Ungmennafélagið Ármann skrifuðu undir samstarfssamning um ráðningu íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. Allt utanumhald um íþróttastarf í sveitarfélaginu verður miklu markvissara og miklu meira kemst í framkvæmd. Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson var ráðinn í starfið og hefur staðið sig með mikilli prýði og færi ég honum hér þakkir fyrir hans góða starf.
Ég vil þakka öllum þeim sem komu að íþróttastarfi Ungmennafélagsins Ármanns á einn og annan hátt fyrir gott samstarf og góðar samverustundir. Þakkir til allra iðkenda, ungra sem aldinna, foreldra, afa og ömmu, sjálfboðaliða, stjórnarmanna UMFÁ, starfsfólks Íþróttamiðstöðvarinnar og fyrirtækja sem hafa veitt okkur ómetanlegan stuðning.
Við megum öll vera stolt af því íþróttastarfi sem er í gangi í Skaftárhreppi. Það væri ekkert án ykkar.
Ungmennafélagið Ármann óskar ykkur gleðilegra jóla með þökk fyrir árið sem er að líða.
Pistill íþróttafulltrúa
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps
Kæru íbúar Skaftárhrepps! Í upphafi þessa árs flutti ég inni í nýtt samfélag til að taka við starfi íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. Ég þekkti þegar aðeins til í samfélaginu en hef heldur betur kynnst mörgum hér á árinu. Áður en lengra er haldið langar mig að þakka ykkur fyrir ánægjuleg kynni og samskipti á árinu sem er að líða.
Árið hefur heilt yfir verið skemmtilegt og viðburðarríkt íþróttaár. Mikil og góð þátttaka er á íþróttaæfingum og krakkarnir búnir að fara í nokkur ferðalög á árinu til að keppa í íþróttum. Þar má t.d. nefna Unglingalandsmót UMFÍ þar sem okkar fulltrúar kepptu fyrir hönd USVS í hinum ýmsu greinum. Þar hlaut USVS fyrirmyndarbikar UMFÍ annað árið í röð sem er glæsilegur árangur og einn af hápunktum ársins í íþróttastarfinu.
Við megum vera stolt og þakklát fyrir það íþrótta- og æskulýðsstarf sem unnið er í samfélaginu okkar. Við megum ekki líta á það sem sjálfsagðan hlut að hafa þetta framboð íþróttaviðburða. Til framtíðar litið er stefnan að halda áfram að auka fjölbreytni í íþróttastarfinu svo við náum til sem flestra. Þess vegna langar mig að biðja ykkur að hafa endilega samband við mig ef þið eigið til einhverjar góðar hugmyndir. Ég tek fagnandi á móti öllum ábendingum. Dæmi um hugmynd sem var komið til mín og er nú komin í framkvæmd er tómstundagjafabréfið sem er auglýst hér í fréttabréfinu.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að íþrótta- og æskulýðsstarfi í Skaftárhreppi á einn eða annan hátt á árinu fyrir sitt framlag. Fanney Ólöf, formaður Umf. Ármanns, fær hér sérstakar þakkir frá mér fyrir gott samstarf. Hún hefur lagt grunninn að því mikla og góða starfi sem hér er unnið og fyrir það megum við vera þakklát!
Gleðilega hátíð! Megi nýtt ár færa ykkur gæfu og gleði!