Fréttir

Fyrsta skóflustungan fyrir nýjan körfuboltavöll

Nýr körfuboltavöllur mun rísa á Kirkjubæjarklaustri í sumar, nánar tiltekið á skólalóð Kirkjubæjarskóla. Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti á síðasta ári að ráðast í þessar framkvæmdir sem hófust í dag.

Það var Digriklettur ehf sem átti lægsta boðið í verkið og var Hörður Davíðsson mættur með gröfuna í morgun til að hefja framkvæmdir. Til að hefja vinnuna formlega var íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps, Sigurður Eyjólfur, kallaður út til að taka fyrstu skóflustunguna og það gerði hann undir góðri leiðsögn Harðar.

Um er að ræða glæsilegan 6 körfuvöll sem verður upphitaður. Það verður því frábært að nýta völlinn á fögrum vetrardögum þegar snjór og klaki er yfir öllu. Völlurinn er ekki aðeins körfuboltavöllur því einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að stunda greinar eins og blak og ringó á vellinum. Framkvæmdum lýkur síðar í sumar og Ungmennafélagið ÁS stefnir á að bjóða upp á æfingar á vellinum áður en sumaræfingum lýkur.