Fréttir

Bjarni og Gunnar heiðraðir fyrir sjálfboðaliðastarf

Aðalfundur Ungmennafélagsins ÁS fór fram á Kirkjubæjarstofu síðastliðinn föstudag, 7. mars. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf sem og afhending viðurkenninga UMFÁS fyrir fyrsta starfsár félagsins, árið 2024.

Eins og lesa má um hér https://umfas.is/petur-yngvi-efnilegastur-signy-heida-hlaut-hvatningarverdlaun/ voru afhentar viðurkenningar til efnilegasta íþróttamannsins sem og hvatningarverðlaun. Þar að auki voru veittar viðurkenningar til sjálfboðaliða fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins.

Viðurkenningarnar að þessu sinni hlutu þeir Bjarni Bjarnason og Gunnar Erlendsson.

Umsögn um Bjarna: Bjarni hefur í mörg ár verið viðloðandi starf Ungmennafélagsins Ármanns/Skafta og síðar ÁS, alltaf verið boðinn og búinn til að styðja við starf félagsins. Bæði sem stjórnarmaður og sem sjálfboðaliði við mótahald, hann hefur einnig verið öflugur liðsstyrkur í upphafi sumars undanfarin ár þegar Kleifavelli hefur verið komið í gott stand. Við sameiningu Ungmennafélaganna í mars 2024 var stofnuð foreldranefnd. Þar hefur Bjarni heldur betur lagt sitt af mörkum eins og í öðru sem hann hefur komið að í starfi félagsins. Hann gengur svo sannarlega í öll verk með bros á vör og er gott dæmi um mikilvægi sjálfboðaliða.

Umsögn um Gunnar: Gunnar hefur verið virkur félagi í starfi Ungmennafélagsins Ármanns/Skafta og síðar ÁS. Hann kom fyrst inni í starf félagsins í janúar 2020 þegar hann tók að sér körfuboltaæfingar. Ári síðar bættist við karate og er það einungis Gunnari að þakka fyrir sinn mikla áhuga og reynslu á íþróttinni. Enn í dag þjálfar hann karate af miklum áhuga við góðan orðstýr. Gunnar hefur einnig setið í stjórn, hjá Ungmennafélaginu Ármanni frá 2020-2024 og í fyrstu stjórn UMFÁS 2024-2025. Við sameiningu Ungmennafélaganna í mars 2024 var stofnuð foreldranefnd. Gunnar hefur sýnt mikinn dugnað og metnað í fyrstu foreldranefnd félagsins sem er ómetanlegt. Hann er gott dæmi um það hvað sjálfboðaliðar skipta miklu máli, sérstaklega í litlum samfélögum þar sem fáar hendur standa á bakvið alla vinnu.