Fréttir

ÁS verður fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Næstkomandi fimmtudagur, 28. nóvember, verður stór dagur fyrir Ungmennafélagið ÁS. Félagið mun þá formlega komast í hóp fyrirmyndarfélaga Íþróttasambands Íslands.

Á heimasíðu ÍSÍ segir um verkefnið ,,Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaverkefni íþrótta-hreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttafélög og deildir innan félaga geta sótt um viðurkenningu til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.”

Það er margt sem félag þarf að hafa til staðar til að gerast fyrirmyndarfélag. ,,Viðurkenningunni fylgja ýmsir kostir. Handhafar hennar hafa samþykkt stefnur og viðbragðsáætlanir í flestum þeim málum er snúa að íþróttastarfi. Fjölbreytt markmið með starfinu liggja fyrir og það eitt og sér eykur líkur á því að allir sem koma að starfinu með einum eða öðrum hætti rói í sömu átt, félaginu til heilla og framfara. Siðareglur liggja fyrir, persónuverndarstefna er klár auk stefna í fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og félagsmálum svo eitthvað sé nefnt.”

Viðurkenningin verður afhent formlega næstkomandi fimmtudag. Viðburðurinn fer fram í fundarsal skrifstofu Skaftárhrepps og hefst kl. 16:30. Þá vekjum við einnig athygli á því að Viðar Halldórsson dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands kemur í heimsókn til okkar við þetta tilefni og verður með fyrirlestur. Hann hefur allt fá aldamótum starfað sem ráðgjafi fyrir mörg af bestu íþróttaliðum landsins.

Verið öll velkomin að koma og fagna þessum áfanga með okkur!