Ungmennafélagið ÁS átti í fyrsta skipti um helgina lið á Íslandsmóti í körfubolta. Þar kepptu drengir í 8. flokki (7.-8. bekk) í þjóðarhöll Íslendinga, Laugardalshöllinni. Heldur betur flottur staður til að hefja keppni á Íslandsmóti!

Drengirnir höfðu beðið eftir mótinu með mikilli eftirvæntingu. Ekki nóg með það að þeir væru að fara spila á sínu fyrsta Íslandsmóti, þá hönnuðu þeir einnig körfuboltabúning af þessu tilefni sem Henson græjaði fyrir þá og færum við honum bestu þakkir fyrir aðstoða drengina í því að láta þessa hugmynd verða að veruleika.
En þá að máli málanna, leikjum helgarinnar! Fyrsti leikur ÁS var gegn Dímon/Heklu þar sem Rangæingar höfðu betur 54-18. Næsti leikur var gegn liði Vals þar sem strákarnir í ÁS unnu glæsilegan sigur 42-22. Niðurstaðan frá fyrsta degi því einn sigur og eitt tap.
Í gær sunnudag voru fyrstu andstæðingar dagsins lið Samherja úr Eyjafirði. Þar unnu strákarnir í ÁS sinn annan sigur í röð. Spennandi leikur þar sem lokatölur voru 47-38. Í seinni leik gærdagsins mætti ÁS liði Dímons/Heklu öðru sinni þar sem Rangæingar höfðu aftur betur.
Heldur betur flott frumraun ÁS á Íslandsmóti í körfubolta og erum við mikið stolt af þessum öfluga hópi sem stóð sig með mikilli prýði. Þökkum þjálfara þeirra, Þorsteini Val, fyrir sína vinnu sem og öllum þeim sem fylgdu þeim eftir um helgina og létu þetta verða að veruleika. Takk!
Það er ein móthelgi eftir í þessum aldursflokki, næsta mót fer fram dagana 24.-25. maí.