Fréttir

Ármann og Skafti verða Ungmennafélagið ÁS

Sameining Ungmennafélaganna Ármanns og Skafta í Skaftárhreppi var samþykkt samhljóða á fjölmennum fundi á Kirkjubæjarstofu í kvöld. Nýtt félag heitir Ungmennafélagið ÁS.

Stjórnir Umf. Ármanns og Umf. Skafta hittust á fundi síðastliðið haust sem leiddi til þess að hugmynd um sameiningu félaganna komst á annað stig. Mikil vinna og gott samtal hefur átt sér stað síðan þá sem skilaði þessari niðurstöðu í kvöld.

Þann 3. mars síðastliðinn hélt Umf. Skafti aðalfund sinn þar sem samþykkt var að allir félagar og starfsemi Umf. Skafta myndi færast yfir í ný stofnað félag, Umf. ÁS. Félagið er stofnað á kennitölu Ungmennafélagsins Ármanns og með samþykki nýrra laga var samþykkt breyting á nafni félagsins og merki og sem fyrr segir heitir nýtt félag Ungmennafélagið ÁS.

Aðalfundur Ungmennafélagsins Ármanns fór sem fyrr segir fram á Kirkjubæjarstofu í kvöld. Eftir hefðbundin aðalfundarstörf og veitingu viðurkenninga var farið í fyrrnefndar lagabreytingar. Veitt voru hvatningar- og framfaraverðlaun. Hvatningarverðlaunin hlaut Ólöf Ósk Bjarnadóttir og framfaraverðlaunin Ásgeir Örn Sverrisson.

Fundarmenn fóru svo sannarlega saddir heim! Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum var boðið upp á pizzu frá Systrakaffi. Eftir að formaður hafði slitið fundi var boðið upp á kaffi og kökur merktar Umf. ÁS. Takk Solla fyrir glæsilegar og góðar kökur!

Um er að ræða tímamótadag í íþrótta- og æskulýðsstarfi í Skaftárhreppi. Með nýju félagi verður til sterkari og öflugri heild sem mun koma til með að efla allt íþrótta- og æskulýðsstarf í sveitarfélaginu til framtíðar.

Skipan í stjórnir og nefndir.

Stjórn.
Fanney Ólöf Lárusdóttir, formaður.
Sæunn Káradóttir, ritari.
Kristín Lárusdóttir, gjaldkeri.
Bryndís Karen Pálsdóttir, meðstjórnandi.
Gunnar Erlendsson, meðstjórnandi.

Varamenn.
Bjarni Dagur Bjarnason og Konný Sif Gottsveinsdóttir.

Skoðunarmenn reikninga.
Sverrir Gíslason og Sigmar Helgason, Sigurður Sverrisson til vara.

Foreldranefnd.
Anna Magdalena Buda
Bjarni Bjarnason
Sólveig Ólafsdóttir, formaður nefndarinnar.

Íþróttanefnd.
Bryndís Karen Pálsdóttir
Davíð Andri Agnarsson
Guðmundur Ingi Arnarsson, formaður nefndarinnar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá stjórn og varamenn. Frá vinstri: Kristín Lárusdóttir, Bjarni Dagur Bjarnason, Gunnar Erlendsson, Fanney Ólöf Lárusdóttir, Konný Sif Gottsveinsdóttir, Sæunn Káradóttir og Bryndís Karen Pálsdóttir.