Fréttir

Árið okkar – Upprifjun frá árinu 2024

Ungmennafélagið ÁS gerir upp árið 2024 hér á heimasíðu félagsins. Nú er komið að því að rifja upp helstu verkefni og viðburði frá júní og út ágúst.

Í byrjun júní tók íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps, Sigurður Eyjólfur, fyrstu skóflustunguna fyrir nýjan körfuboltavöll. Framkvæmdum lauk ekki í sumar eins og vonast hafði verið til en vonandi sjáum við völlinn rísa á nýju ári. Lokið var við jarðvegsvinnu í sumar. Um er að ræða glæsilegan 6 körfuvöll sem verður upphitaður. Það verður því frábært að nýta völlinn á fögrum vetrardögum þegar snjór og klaki er yfir öllu. Völlurinn er ekki aðeins körfuboltavöllur því einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að stunda greinar eins og blak og ringó á vellinum.

Fyrsti viðburðurinn í íþróttastarfi sumarsins var hin árlega heimsókn Mola frá KSÍ. Góð þáttaka var á æfingunni. Magnús Hlynur Hreiðarsson fréttamaður leit við en hann var þá að vinna innslag um íþróttalíf í Skaftárhreppi.

Í íþróttastarfi barna og unglinga var boðið upp á fótbolta, körfubolta, frjálsar íþróttir og strandblak. Mjög góð þátttaka var í fótbolta og frjálsum, fremur fámennt var í körfubolta og ekkert varð úr strandblaksæfingum vegna dræmrar þátttöku. Hjá fullorðnum var fótbolti og strandblak á dagskránni og var spilað nokkrum sinnum í sumar.

Hinn árlegi knattspyrnu- og skákskóli AVP ehf. í Vík var að þessu sinni dagana 10.-13. júní. Eins og alltaf var þátttakan mjög góð. Í beinu framhaldi af knattspyrnuskólanum í Vík hélt okkar fólk í ferðalag á Blönduós. Fjórða árið í röð sóttu iðkendur frá USVS Smábæjaleikana á Blönduósi. Það er afar ánægjulegt að segja frá því að keppendum fjölgar alltaf á milli ára. Sem segir okkur það að okkar fólk fer alltaf ánægt frá Blönduósi og býður spennt eftir því að koma aftur.

Þrjú lið voru skráð til leiks frá USVS í 5. 6. og 7. flokki og eins og alltaf voru úrslitin allskonar, bæði sigrar og töp. Okkar fólk skoraði svo auðvitað fullt af glæsilegum mörkum. Ungmennafélagið ÁS átti 19 keppendur í þessum tæplega 30 keppenda hópi frá USVS. Ungmennafélagið Katla átti 8 keppendur.

Það má jafnvel segja að keppnin á svona mótum sé í raun algjört aukaatriði. Því þessi mikla og góða samvera á öllum stundum á tjaldsvæðinu, leiksvæðinu eða fótboltavellinum er það skemmtilegasta við ferðirnar á svona mót.

Það er ekki sjálfsagt komandi úr litlu samfélagi að við mætum nú ár eftir ár með lið á mótið. En ástæðan fyrir því að við getum það er mikill áhugi, sem er auðvitað til staðar hjá krökkunum, en ekki síður hjá fullorðna fólkinu. Það hefur mikil stemmning byggst upp í kringum mótið hjá foreldrum sem er algjörlega frábært og þeir greinilega duglegir við að láta aðra vita hvað þetta er skemmtilegt. Þannig kemur árlega inn nýtt fólk í þetta fjör og þegar búið er að fara einu sinni er auðvitað ekki annað hægt en að fara aftur! Foreldrar eiga því stóran þátt í því að gera Smábæjaleikana að þeim ómissandi viðburði sem þeir eru orðið í okkar starfi. Smábæjaleikarnir árið 2025 fara fram dagana 14.-15. júní.

Einn af skemmtilegustu viðburðum ársins að mati íþróttafulltrúa er hin árlega vinnustund á Kleifum í byrjun sumars. Það er alltaf jafn skemmtilegt að virkja hinn eina sanna ungmennafélagsanda í fólki og fá alla til að vinna saman. Góð mæting var í vinnustundina og komst margt í verk þökk sé því góða fólki sem gaf sér tíma í að mæta!

Ungmennafélagið ÁS var með skipulagðar göngur á dagskránni síðastliðið sumar og var fyrsta ganga sumarsins í samstarfi við Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarð. Þá var boðið upp á fræðslugöngu um Botna í Meðallandi. Mjög góð þátttaka var í gönguna á votum sumardegi!

Fanney Ólöf hafði umsjón með göngu þann 5. júlí en þá var farið í skógargöngu og meðal annars komið við í Sönghelli. Næsta ganga var þann 12. júlí og þá var það Bryndís Karen Pálsdóttir sem hafði umsjón með göngu í Skaftártungu. Gengið var á Berjafell og endað í skóginum í Giljalandi.

Hið vinsæla leikjanámskeið fór fram um mánaðarmótin júní/júlí. Eins og alltaf var þátttakan mjög góð og ekki annað að heyra að mikil ánægja hafi verið með námskeiðið. Fyrsta námskeiðið í þessari mynd fór fram árið 2020 og var þetta því fimmta árið í röð sem boðið er upp á leikjanámskeið með þessu sniði. Námskeiðið hefur þó breyst talsvert frá því það hóf göngu sína, dögunum hefur fjölgað og ýmsir viðburðir bæst við. Það er þó einn viðburður sem hefur haldið sér öll árin og það er hin vinsæla heimsókn slökkviliðs Skaftárhrepps. 

Sigurður Eyjólfur hafði umsjón með námskeiðinu fimmta árið í röð. Honum til aðstoðar voru reynslumiklir aðstoðarmenn, en þau Ásgeir Örn og Ólöf Ósk hafa verið með á námskeiðinu síðustu fjögur ár í því hlutverki. Kjartan Valur Ólafsson kom svo nýr inn í leikjanámskeiðteymið í sumar en hann var einmitt einn af þátttakendum á fyrsta námskeiðinu árið 2020.

Okkar fólk fjölmennti að sjálfsögðu á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var í Borgarnesi um Verslunarmannahelgina. Þar var mikið fjör og mikil gleði eins og alltaf á landsmótum. Mótið árið 2025 fer fram á Egilsstöðum.

Síðasta ganga sumarsins var upp á Pétursey í Mýrdal þar sem Siggi bauð upp á leiðsögn og fræðslu. Nokkuð fjölmennt var í göngunni í mýrdælskri veðurblíðu.

Eftir að sumardagskránni lauk formlega var boðið upp á auka æfingar en þá var kvikmyndatökufólk á staðnum að vinna myndefni fyrir kynningarverkefnið “Heima á Klaustri”. Krakkarnir spiluðu fótbolta fyrir framan myndavélarnar og fullorðnafólkið ringó. Gaman verður að sjá útkomuna úr þessu í byrjun komandi árs.

Eins og alltaf lauk sumrinu á lokahófi þar sem iðkendur í íþróttastarfi sumarsins komu saman, fóru í leiki og endaðu á því að borða grillaðar pylsur.

Hér má lesa upprifjun frá janúar og út mars: https://umfas.is/arid-okkar-upprifjun-fra-arinu-2024/

Hér má lesa upprifjun frá apríl og maí: https://umfas.is/1017-2/