Fréttir

Árið okkar – Upprifjun frá árinu 2024

Ungmennafélagið ÁS gerir upp árið 2024 næstu daga hér á heimasíðu félagsins. Við byrjum á að líta yfir helstu verkefni og viðburði frá janúar og út mars. Fyrstu tvo mánuði ársins var Ungmennafélagið Ármann starfandi en það átti svo eftir að breytast í byrjun mars.

Fyrsti viðburður ársins var afhending viðurkenninga til íþróttafólks úr Skaftárhreppi sem skaraði fram úr á árinu 2023. Þar voru tilnefnd Daníel Smári Björnsson (frjálsíþróttir), Kristín Lárusdóttir (hestaíþróttir), og Svanhildur Guðbrandsdóttir (hestaíþróttir). Íþrótta- og tómstundanefnd Skaftárhrepps útnefndi Kristínu Lárusdóttur sem íþróttamann ársins. Daníel Smári fékk viðurkenningu fyrir að vera sá efnilegasti. Þá fékk Sigurjón Ægir Ólafsson sérstaka heiðursviðurkenningu fyrir stórglæsilegan árangur í kraftlyftingum.

Að lokinni verðlaunaafhendingu voru afhentir styrkir. Systrakaffi styrkti Ungmennafélagið Ármann um 80.000 krónur sem var ágóðinn af seldum spjöldum á jólabingói. Í kjölfarið mættu á staðinn tveir fjörugir jólasveinar sem hafa undanfarin ár verið á ferðinni á Kirkjubæjarklaustri og nágrenni á Aðfangadag. Að þeirra sögn hafa þeir ekkert að gera við peninga og ákváðu því að styrkja Ungmennafélagið Ármann um 100.000 krónur.

Þessir styrkir voru nýttir í viðburð sem var nokkrum dögum síðar. Þá var hið árlega handboltanámskeið. Ekkert þátttökugjald var á námskeiðið. Námskeiðið var í boði Systrakaffi og jólasveina. Þátttaka á námskeiðinu var góð eins og alltaf. Mikil stemning fyrir handboltanum og að fylgjast með íslenska landsliðinu, hápunkturinn var að koma saman og horfa á leik Íslands og Svartfjallalands og borða pizzu. Öllum til mikillar ánægju endaði leikurinn vel! Sigurður Eyjólfur hafði umsjón með námskeiðinu og honum til aðstoðar voru þau Ásgeir Örn, Ólöf Ósk og Sigurður Gísli.

Fanney Ólöf, Ásgeir Örn og Sigurður Gísli settu svo íþróttaskólann 2024 af stað um miðjan janúar og var boðið upp á 8 skipti á vorönn. Í íþróttaskólanum er fjölbreytt hreyfing og góð samvera barna og foreldra. Í íþróttaskóla læra börn allar grunnhreyfingarnar. Þátttökugjald í íþróttaskóla var niðurgreitt með styrkjum sem Ungmennafélagið hafði fengið frá Systrakaffi og Kvenfélaginu Hvöt og Kvenfélagi Kirkjubæjarhrepps.

Í lok janúar var ætlunin að fara á Lava mótið í körfubolta á Hvolsvelli en við þurftum því miður að hætta við þá ferð vegna veðurs. Á vorönn var í boði hjá börnum og unglingum að stunda blak, fótbolta, körfubolta og karate. Hjá fullorðnum var blak, ringó, fótbolti, körfubolti, badminton og borðtennis. Í febrúar bauð félagið uppá hreyfingu 60+ að nýju. Þar var á dagskránni boccia, pokavarp, ringó og sundleikfimi.

Í febrúar ár hvert fer Lífshlaupið fram. Um er að ræða heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Skrá má alla hreyfingu niður ef hún nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Vinnustaðir, skólar og hreystihópar 67+ eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Ungmennafélagið bauð upp á veglega dagskrá við þetta tilefni og auglýsti allar æfingar opnar.

Sundnámskeið var haldið dagana 16.-17. febrúar. Kasia hafði umsjón með námskeiðinu og var þátttaka góð. Þess má geta að námskeiðið var í boði styrktaraðila Ungmennafélagsins sem eru Systrakaffi, Hótel Klaustur, Hótel Laki, Skaftárhreppur, Stracta Apartments, Sláturfélags Suðurlands, Maríubakki, RR Tréverk, Eldhraun, Digriklettur.

Eins og raunin hefur verið undanfarin ár þá er boðið upp á frjálsíþróttaæfingar í aðdraganda innanhúsmóts USVS. Á því var engin breyting og voru bæði þjálfarar og foreldrar á staðnum til að leiðbeina og aðstoða krakkana okkar fyrir mótið. Boðið var upp á fjórar upphitunaræfingar. Mótið sjálft var svo þann 2. mars og stóðu krakkarnir okkar sig mjög vel. Greinilegt að þessi fíni undirbúningur með þjálfurum og foreldrum tókst vel til.

Aðalfundur Ungmennafélagsins Ármanns fór fram á Kirkjubæjarstofu þann 8. mars. Segja má að það hafi verið tímamótafundur fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Skaftárhreppi þegar félögin Ármann og Skafti sameinuðust í Ungmennafélagið ÁS. Allt sem fylgdi sameiningarvinnunni gekk vel fyrir sig og endurspeglaðist það vel í því að samþykkt var samhljóða á fjölmennum fundi á Kirkjubæjarstofu að sameina kraftana.

Stjórnir Umf. Ármanns og Umf. Skafta hittust á fundi haustið 2023 sem leiddi til þess að hugmynd um sameiningu félaganna komst á annað stig. Mikil vinna og gott samtal hefur átt sér stað síðan þá sem skilaði þessari niðurstöðu í kvöld. Þann 3. mars hélt Umf. Skafti aðalfund sinn þar sem samþykkt var að allir félagar og starfsemi Umf. Skafta myndi færast yfir í ný stofnað félag, UMFÁS. Félagið er stofnað á kennitölu Ungmennafélagsins Ármanns og með samþykki nýrra laga var samþykkt breyting á nafni félagsins og merki.

Á fundinum voru veitt hvatningar- og framfaraverðlaun. Hvatningarverðlaunin hlaut Ólöf Ósk Bjarnadóttir og framfaraverðlaunin Ásgeir Örn Sverrisson. Fundarmenn fóru svo sannarlega saddir heim! Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum var boðið upp á pizzu frá Systrakaffi. Eftir að formaður hafði slitið fundi var boðið upp á kaffi og kökur merktar UMFÁS sem Solla (Sólveig Ólafsdóttir) græjaði fyrir okkur.

Skipan í stjórnir og nefndir Ungmennafélagsins ÁS
Stjórn.
Fanney Ólöf Lárusdóttir, formaður.
Sæunn Káradóttir, ritari.
Kristín Lárusdóttir, gjaldkeri.
Bryndís Karen Pálsdóttir, meðstjórnandi.
Gunnar Erlendsson, meðstjórnandi.
Varamenn.
Bjarni Dagur Bjarnason og Konný Sif Gottsveinsdóttir.
Skoðunarmenn reikninga.
Sverrir Gíslason og Sigmar Helgason, Sigurður Sverrisson til vara.
Foreldranefnd.
Anna Magdalena Buda
Bjarni Bjarnason
Gunnar Erlendsson
Íþróttanefnd.
Bryndís Karen Pálsdóttir
Davíð Andri Agnarsson
Guðmundur Ingi Arnarsson

Fylgist áfram vel með – Við höldum áfram að gera upp árið á næstu dögum!