Ungmennafélagið ÁS komst í dag formlega í hóp fyrirmyndarfélaga ÍSÍ. Það var Fanney Ólöf Lárusdóttir, formaður UMFÁS, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins. Það var Viðar Halldórsson sem afhenti viðurkenninguna fyrir hönd ÍSÍ.
Þessi viðurkenning er mikill gæðastimpill fyrir Ungmennafélagið ÁS og það góða starf sem unnið hefur verið í íþrótta- og æskulýðsmálum í Skaftárhreppi á undanförnum árum.
,,Við erum mikið stolt af því að hljóta þessa viðurkenningu sem gerir allt okkar starf faglegra og betra. Nú þegar handbókin okkar er tilbúin er stóra verkefnið að fylgja því sem þar kemur fram vel eftir og gæta þess að uppfylla allar þær kröfur sem við viljum standast. Við gerum okkur grein fyrir því að við getum enn gert margt betur og mun handbókin okkar nýtast vel í því verkefni, segir Sigurður Eyjólfur íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.
Fanney Ólöf flutti eftirfarandi ávarp við afhendinguna.
,,Góðir félagar! Fyrir hönd Ungmennafélagsins ÁS vil ég þakka fyrir þann mikla heiður að taka við viðurkenningu frá ÍSÍ um að UMFÁS sé hér með fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
Þetta er búin að vera tæplega tveggja ára ferli eða alveg síðan Sigurður Eyjólfur var ráðinn íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps í ársbyrjun 2023. Þetta var eitt af hlutverkum hans í starfslýsingu að koma Ungmennafélaginu Ármanni í hóp fyrirmyndarfélaga ÍSÍ. Síðan er margt búið að gerast. T.d. sameina ungmennafélögin í Skaftárhreppi í eitt félag. Ármann og Skafti eru orðin eitt öflugt sameinað félag undir nafninu Ungmennafélagið ÁS.
Vil ég þakka Sigurði fyrir hans góða starf. Hann sá um samantekt Handbókar Ungmennafélagsins ÁS þar sem haldið er utan um allt skipulag og starf félagsins. Þetta er mikilvæg handbók sem þarf að uppfæra og í henni er allt sem við þurfum að framfylgja til að vera Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Takk Sigurður Eyjólfur, þetta hefði ekki hafst án þinna góðu starfa.
Þetta er gríðarlegur heiður fyrir okkur í Ungmennafélaginu ÁS og við megum öll vera stolt. Takk kærlega fyrir okkur! Áfram ÁS.”
Að lokinni afhendingu viðurkenningarinnar afhenti Magnea Þórarinsdóttir Ungmennafélaginu gjöf fyrir hönd Félags eldri borgara í Skaftárhreppi. Gjöfin er nýtt bocciasett en Ungmennafélagið hóf nú í byrjun árs að bjóða upp á hreyfingu fyrir 60+ og erum við mikið þakklát eldri borgurum í Skaftárhreppi fyrir þessa hugulsemi.
Viðar Halldórsson flutti mjög áhugavert erindi um félagslega töfra. Þar var fjallað um það félagslega afl sem myndast í samskiptum fólks, og stuðlar að vellíðan þess, gerir hóp að liði, og samfélag að samfélagi.
Að lokum komum við á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem komu og fögnuðu þessum áfanga með okkur!