Fréttir

Ringó kynningarnámskeið 5. nóvember

Reynsluboltinn Ólafur Elí Magnússon ætlar að mæta ásamt nokkrum hressum Rangæingum og kynna ringó fyrir íbúum Skaftárhrepps. Þann 5. nóvember kl. 11:00 í íþróttahúsinu. Ringó er grein sem nýtur vaxandi vinsælda, svipar nokkuð til blaks en í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir.

Greinin hentar öllum, ungum sem öldnum. Sem sagt sannkallað fjölskyldusport þar sem fólk á öllum aldri getur tekið þátt. Ringó er vinsæl grein meðal eldri borgara víða um land og hvetjum við alla sem hafa tök á að mæta á kynninguna þann 5. nóvember. Áhugasamir fá tækifæri til að prófa en einnig er velkomið að koma og fylgjast með.

Fyrir áhugasama fann ég þessa fínu útskýringu á ringó á heimasíðu UÍA:
Ringó svipar nokkuð til blaks en í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir, sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf hjá andstæðingnum. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og þar sem tveir hringir eru á lofti í einu verður oft æði mikið líf og fjör á vellinum. Spilað er á blakvelli í fjögurra manna liðum og þátttakendur þurfa ekki að búa yfir neinni sérstakri kunnáttu eða getu annarri en að geta gripið með annarri hendi og kastað yfir netið. Ringó er því frábær íþrótt fyrir fólk á öllum aldri og skemmtilegt hópefli fyrir fjölskyldur, vinahópa og vinnustaði.