Fréttir

USVS sækir um Landsmót 50+ árið 2025

Í dag sendi USVS inn umsókn þar sem sambandið sækir um að halda Landsmót 50+ árið 2025 á Kirkjubæjarklaustri. Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti samhljóða á fundi sínum 14. september síðastliðinn að styðja umsókn USVS.

Í bókun sveitarstjórnar segir meðal annars: „Skaftárhreppur lýsir sig jafnframt reiðubúið til að vera USVS og UMFÍ til aðstoðar á hvern þann hátt sem getur orðið til þess að mótið verði sveitarfélaginu og ungmennasambandinu til sóma”.

USVS hefur einu sinni staðið að framkvæmd Landsmóts 50+ en það var árið 2013 í Vík í Mýrdal.

Umsóknarfrestur rennur út 1. október. Í kjölfarið tekur við einhver bið eftir að því að niðurstaða fáist í það hvar mótið verður haldið árið 2025. Nú þegar er ljóst að USVS er ekki eina sambandið sem sækir um mótið því í vikunni var tilkynnt að HSK myndi sækja um að halda mótið á Hellu.

Næsta Landsmót 50+ fer fram í Vogum á Vatnsleysuströnd sumarið 2024. Nánar má lesa um Landsmót 50+ á heimasíðu UMFÍ: https://umfi.is/vidburdir/landsmot-umfi-50plus/

default