
Leikjanámskeiði UMFÁS lauk í dag. Námskeiði var tvískipt í ár, fyrstu dagar námskeiðsins voru 18.-20. júní og seinni hlutinn 30. júní til dagsins í dag. Fyrsta námskeiðið í þessari mynd fór fram árið 2020 og var þetta því sjötta árið í röð sem boðið er upp á leikjanámskeið með þessu sniði.
Öll árin höfum við fengið slökkvilið Skaftárhrepps í heimsókn og erum við innilega þakklát þeim fyrir það. Það vekur alltaf mikla lukku hjá krökkunum og kíktu þeir einmitt í heimsókn til okkar í dag í blíðunni.
Góð og skemmtileg samvera lýsir námskeiðunum best. Fullt af leikjum og hinar ýmsu íþróttagreinar prófaðar, göngutúrar um nærumhverfið og bíó er meðal þess sem þátttakendur á námskeiðinu hafa verið að gera undanfarna daga.
Þátttakendur á námskeiðinu í ár voru alls 13, Sigurður Eyjólfur hafði umsjón með námskeiðinu líkt og fyrri ár. Með honum voru þrír leiðbeinendur þau Kjartan Valur, Pétur Yngvi og Signý Heiða sem stóðu sig afar vel og tóku virkan þátt í dagskránni með krökkunum. Leiðbeinendurnir áttu það öll sameiginlegt að hafa tekið þátt á leikjanámskeiði á sínum tíma en það hefur sem fyrr segir verið á dagskrá síðustu 6 ár fyrir 6-9 ára.
Gaman er að segja frá því að Ungmennafélagið ÁS sótti um styrk í Hvatasjóð íþróttahreyfingarinnar í vor og fékk í júní úthlutuðum 100.000 kr. styrk í námskeiðið sem skiptir okkur miklu máli.
Hér meðfylgjandi má sjá mynd af hópnum með þátttökuglaðning leikjanámskeiðsins í ár en það voru merktar derhúfur frá Henson.
