Ungmennafélagið ÁS gerir upp árið 2024 hér á heimasíðu félagsins. Nú er komið að því að ljúka þessari upprifjun með því að líta yfir og rifja upp hvað var um að vera frá september og út desember.
Íþróttastarf haustannar hófst í byrjun september með nokkuð hefðbundu sniði. Stærsta breytingin var þó sú að ekki lengur var boðið upp á blak fyrir börn og ungmenni á grunnskólaaldri. Þess í stað komu frjálsar íþróttir inni í dagskrána. Fótbolti, körfubolti og karate voru að venju á dagskránni. Þátttaka var nokkuð góð.
Fyrsti viðburður haustannar var ferð knattspyrnuiðkenda í 5.-10. bekk til Reykjavíkur á landsleik í fótbolta þar sem Ísland mætti Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni. Við komuna til Reykjavíkur byrjaði hópurinn á því að gæða sér á pizzu svo að allir myndu halda saddir og sælir á völlinn. Næst var haldið niður í Laugardal þar sem hópurinn skoðaði sig um í kringum Laugardalsvöll. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar hópurinn stillti sér upp við styttu af knattspyrnuhetjunni Alberti Sigurði Guðmundssyni. Albert var brautryðjandi í knattspyrnu á Íslandi, afrekaði það að vera fyrsti atvinnumaður Íslendinga í fótbolta.
Næst lá leiðin inn á völlinn þar sem hópurinn sá til þess að góð sala var í minjagripabúðinni á vellinum! Sérstaklega í hárkolludeildinni þar sem einn keypti sér hárkollu í íslensku fána litunum, svo fylgdu hinir 10 á eftir. Það var því sérlega þægilegt fyrir fylgdarfólk hópsins að greina innan um allan mannfjöldann hverjir tilheyrðu hópnum eftir að allir höfðu sett upp hárkolluna góðu! Svo var komið að leiknum. Leik Íslands og Svartfjallalands í Þjóðadeildinni. Spennan í hópnum fyrir leiknum var eðlilega mikil, enda hafði aðeins 1 af þessum 11 farið á landsleik. Okkar fólk lagði svo sannarlega sitt af mörkum í stuðningsliðinu og tóku virkan þátt í að hvetja okkar lið áfram. Tvö frábær mörk frá þeim Orra Steini og Jóni Degi skiluðu 2-0 sigri Íslands.
Það var þreyttur en ánægður hópur sem skilaði sér til baka á Kirkjubæjarklaustur eftir miðnættið. Frábært að geta boðið upp á þetta ævintýri fyrir krakkana. Við færum þeim Sólveigu og Ragnari Smára bestu þakkir fyrir að koma með í ferðina sem fulltrúar foreldra. Þá viljum við einnig þakka South Coast Adventure innilega fyrir skutlið og frábæra þjónustu!
Boðið var upp á dagskrá í tilefni íþróttaviku Evrópu í lok september. Raunin hefur þó verið sú að fólk hefur ekki verið að gefa sér tíma í að mæta í íþróttahúsið á þessum tíma árs og það reyndist ekki vera mikil breyting á því í ár. Dagskrá í fullorðinsíþróttunum var kynnt samhliða íþróttavikunni, þar var boðið upp á blak, fótbolta, körfubolta, ringó, badminton og borðtennis. Því miður komst hreyfing fullorðna aldrei almennilega af stað í haust vegna dræmrar mætingar. Vonandi sjáum við það breytast núna á nýju ári!
Hreyfing 60+ hófst um miðjan október og er mætingin þar alltaf ágæt en mætti vera enn betri! Í hreyfingu 60+ er spilað boccia og pokavarp. Þá er einnig skipulagður hittingur í sundlauginni á föstudagsmorgnum.
Sunnudaginn 13. október kepptu fulltrúar UMFÁS á Lava mótinu í körfubolta á Hvolsvelli. Þrjú lið voru skráð til leiks frá ÁS, í flokki 1.-2. bekkjar, 3.-4. bekkjar og 5.-7. bekkjar. Krakkarnir okkar stóðu sig þar frábærlega, spiluðu vel og sýndu glæsilega takta.
Silfurleikar ÍR í frjálsum íþróttum fóru fram í Laugardalshöll þann 16. nóvember síðastliðinn. Ungmennafélagið ÁS átti þar tvo flotta fulltrúa, það voru þau Gunnar Ingi og Signý Heiða. Á mótinu kepptu þau í 4-þraut sem inniheldur 60 m, 600 metra, langstökk og kúluvarp. Þau stóðu sig að sjálfsögðu með mikill prýði og voru félagi sínu til sóma. Vel gert krakkar!
Jako Sport heimsótti Kirkjubæjarklaustur 26. nóvember og var með tilboðsdag og kynningu á vörum sínum. Nokkuð margir litu við og gerðu góð kaup!
Þann 28. nóvember kom Viðar Halldórsson í heimsókn til okkar, erindi hans var að flytja fyrirlestur um “Hið ósýnilega afl: Félagslegir töfrar og hvernig þeim er ógnað”. Mjög svo áhugaverður fyrirlestur! Samhliða þessum viðburði fór fram afhending á Fyrirmyndarfélags viðurkenningu ÍSÍ til Ungmennafélagsins ÁS.
Það var Fanney Ólöf Lárusdóttir, formaður UMFÁS, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins. Það var Viðar Halldórsson sem afhenti viðurkenninguna fyrir hönd ÍSÍ. Þessi viðurkenning er mikill gæðastimpill fyrir Ungmennafélagið ÁS og það góða starf sem unnið hefur verið í íþrótta- og æskulýðsmálum í Skaftárhreppi á undanförnum árum.
Að lokinni afhendingu viðurkenningarinnar afhenti Magnea Þórarinsdóttir Ungmennafélaginu gjöf fyrir hönd Félags eldri borgara í Skaftárhreppi. Gjöfin er nýtt bocciasett en Ungmennafélagið hóf nú í byrjun árs að bjóða upp á hreyfingu fyrir 60+ og erum við mikið þakklát eldri borgurum í Skaftárhreppi fyrir þessa hugulsemi.
Íþróttastarfi haustannar lauk með lokahófi um miðjan desember. Þá var krökkunum boðið í jólabíó og Gunnar Erlendsson töfraði fram pizzaveislu.
Hér með lýkur yfirferð okkar um árið 2024 – Hér má sjá fyrri samantektir:
Hér má lesa upprifjun frá janúar og út mars: https://umfas.is/arid-okkar-upprifjun-fra-arinu-2024/
Hér má lesa upprifjun frá apríl og maí: https://umfas.is/1017-2/
Hér má lesa upprifjun frá júní og út ágúst: https://umfas.is/arid-okkar-upprifjun-fra-arinu-2024-2/