Líkt og með viðurkenninguna sjálfboðaliði ársins var viðurkenning veitt í fyrsta skipti fyrir lið ársins á 54. sambandsþingi USVS síðastlinn föstudag.
Tvær tilnefningar bárust í flokknum lið ársins en svo skemmtilega vildi til að sama liðið var tilnefnt tvisvar. UMFÁS og Umf. Katla tilnefndu nefnilega bæði 5. flokk (11-12 ára) USVS í fótbolta sem áttu skemmtilegt og eftirminnilegt sumar.
Í umsögninni sem fylgdi tilnefningunni sagði:
Líkt og undanfarin ár tefldu ungmennafélögin sameiginlega fram liðum undir merkjum USVS. Fótboltasumarið 2023 var afar líflegt og skemmtilegt hjá strákunum í 5. flokki USVS. Þeir kepptu á tveimur mótum, Smábæjaleikunum á Blönduósi í júní og á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki um Verslunarmannahelgina.
Á Smábæjaleikunum á Blönduósi náðu þeir frábærum árangri. Eftir gott gengi fyrsta keppnisdaginn þar sem liðið vann þrjá leiki af fjórum tryggðu strákarnir sér sæti í úrslitakeppni. Þar mættu þeir taplausum HHF í undanúrslitum sem þeir sigruðu örugglega og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleik mótsins. Í úrslitaleiknum voru andstæðingarnir lið Samherja úr Eyjafirði sem höfðu betur 0-2 í jöfnum leik. 2. sætið féll því í hlut USVS og um er að ræða besta árangur USVS á Smábæjaleikunum.
Á Unglingalandsmóti UMFÍ mættu strákarnir aftur til leiks. Þar var niðurstaðan 2 sigrar, 1 jafntefli og 2 töp. Lið USVS hafnaði í 10. sæti af 17 liðum í flokki 11-12 ára drengja.
Góð samvinna og mikil og góð liðsheild eru lýsandi orð fyrir þennan flotta hóp.
Nöfn liðsmanna: Bergsteinn Páll, Marcel Wojciech Buda, Garðar Andri, Kristófer Gunnar, Ingólfur Atlason Waagfjörð, Kjartan Valur, Pétur Yngvi, Róbert Gísli, Þráinn Elís. Þjálfarar hópsins eru þeir Adam Szymielewicz og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Á meðfylgjandi mynd má sjá lið ársins og þar eru (neðri röð f.v.) Bergsteinn Páll, Kjartan Valur, Pétur Yngvi og Þráinn Elís. (efri röð f.v.) Sigurður Eyjólfur, Kristófer Gunnar, Ingólfur Atlason, Marcel Wojciech og Róbert Gísli. Á myndina vantar þá Garðar Andra og Adam þjálfara.
Frá Ungmennafélaginu ÁS var einn tilnefndur í flokknum efnilegasti íþróttamaður USVS. Það var Ásgeir Örn Sverrisson sem var tilnefndur þar ásamt þremur iðkendum Umf. Kötlu, þeim Andra Berg, Garðari Andra og Ingólfi. Andri Berg var útnefndur efnilegasti íþróttamaður USVS en hann náði frábærum árangri í mótorkrossi á liðnu ári.
Hér má lesa umsögnina um Ásgeir Örn.
Ásgeir Örn tekur virkan þátt í starfi UMFÁS. Hann stundar badminton, borðtennis, blak, körfubolta, karate, fótbolta og ringó. Mæting hans á æfingar er til mikillar fyrirmyndar sem og virkni á æfingum. Hann stundar allar greinar sem í boði eru. Ásgeir tók karatepróf í maí sem hann stóðst og hlaut þar með græna beltið. Hann hefur keppt á nokkrum mótum á liðnu ári. Hann keppti á innanhúsmóti USVS í frjálsíþróttum á Kirkjubæjarklaustri og einnig á íþróttahátíð USVS í Vík. Ásgeir keppti í fimm greinum á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki, hann keppti þar í bogfimi, pílu, fótbolta, grashandbolta og körfubolta. Í lok janúar 2024 keppti Ásgeir í karate í fyrsta skipti þegar hann tók þátt í karate keppni á Reykjavíkurleikunum. Ásgeir Örn hefur sýnt það og sannað hversu miklu máli skiptir að mæta vel á æfingar, því æfingin skapar jú meistarann eins og máltækið segir. Samvinna, virðing og gleði eru lýsandi orð fyrir þennan efnilega íþróttamann.
Hér meðfylgjandi mynd eru þeir (f.v.) Ásgeir Örn Sverrisson, Andri Berg Jóhannsson og Ingólfur Atlason Waagfjörð.