Ungmennafélagið ÁS gerir upp árið 2024 hér á heimasíðu félagsins. Nú er komið að því að rifja upp helstu verkefni og viðburði í apríl og maí.
Í byrjun apríl fór fram 54. sambandsþing USVS í Skaftárstofu. Á 53. sambandsþingi USVS, haldið á Hótel Kötlu árið 2023, var samþykkt að heiðra sjálfboðaliða með því að veita viðurkenninguna sjálfboðaliði ársins. Þessi viðurkenning var því veitt í fyrsta skipti á þessu ári. Viðurkenninguna hlaut Fanney Ólöf Lárusdóttir. Í umsögninni kom fram: Fanney Ólöf Lárusdóttir hefur gefið af sér mikla og óeigingjarna vinnu í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Skaftárhreppi undanfarin ár. Hún kom inni í stjórn Umf. Ármanns árið 2018 og var kjörin formaður árið 2019. Hún fer enn með formennsku í dag en nú í hinu nýstofnaða félagi UMFÁS. Fanney hefur undanfarin 5 ár farið fremst í flokki við að leiða þá miklu vinnu við að skapa og þróa það öfluga íþróttastarf sem er í Skaftárhreppi. Það er ómetanlegt að eiga svona öflugan sjálfboðaliða eins og Fanney er í sínu samfélagi.
Líkt og með viðurkenninguna sjálfboðaliði ársins var viðurkenning veitt í fyrsta skipti fyrir lið ársins á 54. sambandsþingi USVS. Þá viðurkenningu hlaut 5. flokkur USVS fyrir frábæran árangur á knattspyrnusumrinu 2023. Þar átti UMFÁS 5 fulltrúa.
Þann 13. apríl fór vormót USVS í körfubolta fram á Kirkjubæjarklaustri. Framkvæmd mótsins var í höndum Ungmennafélagsins ÁS.
Á mótinu kepptu iðkendur frá 5 félögum, UMFÁS, Umf. Kötlu, Umf. Dímoni, Umf. Heklu og Umf. Garpi. Alls voru þetta um 60 keppendur og þar af átti Ungmennafélagið ÁS 15.
Ófærð milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs að morgni mótsdags varð til þess að seinka þurfti mótinu um hálftíma. Keppni hófst upp úr kl. 10 og lauk um kl. 14. Á þessum tíma voru spilaðir 20 leikir í aldursflokkum 1.-6. bekkjar og gekk mótið afar vel fyrir sig.
Að mótinu komu um 15 sjálfboðaliðar úr röðum UMFÁS. Það verður aldrei of oft sagt hversu mikilvægir sjálfboðaliðar eru fyrir ungmennafélagshreyfinguna!
Tveimur vikum síðar fór svo fram annað körfuboltamót. Körfuboltamót UMFÁS, sem að þessu sinni bar heitið “Móðuharðindin 2024”. Þetta var í þriðja sinn sem mótið var haldið og höfðu gamlir ÁSAR titil að verja frá síðustu tveimur mótum.
Á mótið mættu til leiks fimm lið, úr Skaftárhreppi ÁS old boys og ÁS young bloods, úr Hafnarfirði Koli og Skar-Koli, fulltrúar Rangárvallasýslu voru Garparnir. Úr varð hið skemmtilegasta mót og fjölmenni var á áhorfendapöllunum.
ÁS old boys tókst ekki að verja titilinn en hann verður þó áfram innan raða Ungmennafélagsins ÁS. Að þessu sinni stóðu ÁS young bloods uppi sem sigurvegarar með fullt hús stiga.
Úrslit mótsins.
1. sæti ÁS young bloods 8 stig
2. sæti Skar-Koli 6 stig
3. sæti Koli 4 stig
4. sæti ÁS old boys 2 stig
5. sæti Garpur 0 stig
Í lok mótdags var haldið lokahóf á Bike farm í Mörtungu og þar voru veittar hinar ýmsu viðurkenningar.
Nýliði ársins: Gísli Scar-Koli
Tilþrif ársins: Skarphéðinn young bloods
Bjartsýnisverðlaunin: Garpar
Slögg ársins: Pálmar Atli
Þjálfari ársins: Moli
Besta hárgreiðslan: Gunnar Pétur
Flottasta 3ja stiga: Gunnar Erlends
1. sæti: ÁS Young Blood
Ungmennafélagið ÁS tók þátt í Jarðvangsviku Kötlu Geopark og var með þar á dagskránni göngu á Orustuhól þann 28. apríl. Fámennt en góðmennt var í göngunni á fallegum vordegi.
Í maí birtist skemmtileg og ítarleg umfjöllun um hið ný stofnaða UMFÁS í Skinfaxa, fréttabréfi UMFÍ.
Það var mikið fjör í íþróttahúsinu á Kirkjubæjarklaustri um Hvítasunnuhelgina þar sem krakkarnir í Ungmennafélaginu ÁS tóku þátt í karatenámskeiði.
Gunnlaugur Sigurðsson, yfirþjálfari karatedeildar Hauka í Hafnarfirði, hafði umsjón með námskeiðinu. Honum til aðstoðar var karateþjálfari UMFÁS, Gunnar Erlendsson.
Námskeiðið endaði á prófi þar sem Gunnlaugur mat hæfni þeirra. Allir stóðust prófið og hlutu þar af leiðandi ný belti.
Í lok maí var dreift út glæsilegum og veglegum bæklingi inni á öll heimili í Skaftárhreppi þar sem íþrótta- og æskulýðsstarf komandi sumars var kynnt. Mikil ánægja var með þetta framtak.
Maí mánuður endaði svo eins og alltaf á lokahófi íþróttaæfinga. Þátttaka á vorönn í íþróttastarfinu var algjörlega frábær!
Hér má lesa upprifjun frá janúar og út mars: https://umfas.is/arid-okkar-upprifjun-fra-arinu-2024/